Vitinn

Hulda Björk Finnsdóttir, verkefnastjóri Brúarinnar

Episode Summary

Hulda Björk Finnsdóttir er orkurík og jákvæð gömul fimleikastjarna úr Garðabænum sem lauk námi sínu í félagsráðgjöf í Noregi þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið og hlaut m.a. sína fyrstu starfsreynslu á fósturgreiningardeild á Sjúkrahúsinu í Þrándheimi. Hún er yngst fjögurra systkina og skilgreinir sig sem örverpi fjölskyldunnar. Uppeldismál hafa alltaf átt hug hennar allan og var hún snemma að árum farin að hafa sterkar skoðanir á uppeldi barna. Sóttist því mikið eftir því að vinna á leikskólum, æfði og þjálfaði fimleika og fannst öll þessi vinna með börnum og fjölskyldufræði í heild sinni afar áhugaverð. Þessi áhugi hefur endurspeglast í námi hennar og störfum og starfar hún í dag sem verkefnastjóri Brúarinnar hjá Hafnarfjarðarbæ. Hafnarfjarðarbær hefur frá og með haustinu 2018 starfrækt BRÚNA sem er nýtt verklag í þjónustu við börn í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins og hefur það stóra markmið að auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Áhugavert verkefni sem vaknaði sem hugmynd 2016 og ákveðið var að ráðast í framkvæmd og innleiðingu áhaustið 2018. Nýlega hlaut Brúin tilnefningu til evrópskra verðlauna og hélt hópur héðan til Brussel til að taka þátt í verðlaunahátíð valinna verkefna.